top of page
Search
  • Writer's pictureSkjálftinn

Skjálftinn - myndbandaútgáfa 2022 og framtíðarsýn


Skjálftinn er sunnlensk hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8.-10. bekk í anda Skrekks sem hefur verið haldinn fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar í yfir 30 ár. Skjálftinn var haldinn í fyrsta sinn vorið 2021 með góðum árangri, þegar íþróttahúsinu í Þorlákshöfn var breytt í viðburðarhöll og 8 skólar í Árnessýslu sýndu glæsileg og metnaðarfull atriði í samstarfi við RÚV.


Þetta skólaár var ekki hægt að halda Skjálftann með sama sniði þar sem fjármagn vantaði fyrir framkvæmdina, sem er mjög kostnaðarsöm og alfarið á ábyrgð undirritaðar. Stærsti kostnaðurinn verður til við það að leigja inn græjur sem þar til að breyta íþróttahúsi í menningarhús og tæknivinnu í kringum þá framvkæmd. Í stað þess að fella Skjálftann niður þetta skólár þá var tekin sú ákvörðun að bjóða upp á myndbandaútgáfu. Sunnlenskir skólar gátu sent inn myndbönd af atriðum sínum og máttu nýta tæknina eins og þau vildu til þess að styðja við sín atriði, sem opnaði vissulega á ný tækifæri í sköpunarvinnunni.


Nokkrir skólar fóru af stað í þessa vinnu en það voru Kerhólsskóli og Sunnulækjarskóli sem kláruðu sín myndbönd og sendu inn. Bæði atriðin voru glæsileg og nemendur sýndu mikla þrautseigju að klára verkefnið, en eins og flestir muna var erfitt ástand fyrri hluta annar þar sem margir voru veikir af covid, bæði kennarar og nemendur.


Sunnulækjarskóli hlaut 1. sæti Skjálftans 2022 og halda því verðlaunagripnum áfram, en þau unnu einnig Skjálftann 2021. Hér að ofan má sjá atriði Sunnulækjarskóla og hér fyrir neðan má sjá atriði Kerhólsskóla, bæði glæsileg!Ávinningur Skjálftans

Eftir fyrsta Skjálftann, vorið 2021 voru sendar út viðhorfskannanir þar sem þátttakendur voru beðnir um að deila sinni reynslu af því að taka þátt í verkefninu. Hér má sjá nokkur ummæli:


„Besta upplifun lífs míns!“

„Þetta er það skemmtilegasta sem eg hef gert:)“

„Mjög góð reynsla, þetta bætti meiri fjölbreytileika í skólalífið sem er æði“

„Svo æðisleg, allt liðið var avo samheldið og skemmtilegt og allir voru svo jákvæðir og glaðir að vera þarna, ég kynntist líka fullt af fólki sem urðu vinir mínir sem eg hefði aldrei talað við annars“

„Mér fannst hún alveg ÆÐISLEG ég kynntist svo mörgum nýjum krökkum og það er lika rosalega erfitt að sinna þessu áhugamáli að leika/syngja/dansa eða spila þannig það er alveg æðislegt að fá svona geggjað tækifæri til að upplifa þetta❤ “

„Miklu betri en ég var að búast við! Svo mögnuð upplifun“

„Það að taka þátt í Skjálftanum var gjörsamlega klikkað skemmtilegt og svo frábær upplifun. Ég kynntist fullt af krökkum sem að ég hefði ekkert talað við ef ekki væri fyrir Skjálftann. Ég skapaði ógleymanlegar minningar og er þakklát fyrir síðustu mánuði þrátt fyrir laaangar æfingar og mikla erfiðisvinnu. En það skilaði sér allt að lokum! Mig hefur langað síðan ég var lítil að keppa í Skrekk og var alvarlega að pæla í því að fara í skóla í RVK svo að ég gæti verið með. En neinei, Skjálftinn kom og ég er endalaust þakklát fyrir það að fá að hafa fengið að taka þátt með mögnuðum krökkum! Takk fyrir mig<3“

„Var minna þunglynd og kynntist fult af krökkum“

„Ég náði að ýta sjálfri mér til að gera eitthvað sem ég hefði aldrei gert og ég er mjög ánægð·“

„Sjálfstraustið hækkaði mikið á að fara svona út um þægindarammann“

„Eignaðist rosaleg góða vini. Skjálftinn hjálpaði mer og öðrum vinum minum að komast yfir kvíða.“


Það þarf ekki að leita lengi í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, Menningarstefnu Íslands, menntarstefnum sveitarfélaga og í fleiri útgefnum gögnum til að sjá að víða er talað um mikilvægi sköpunar, samvinnu, jafnra tækifæra til náms, mikilvægi fjölbreytileikans og svo framvegis. Þetta var einmitt það sem rak undirritaða af stað til þess að setja Skjálftann í gang því í öll þau 30 ár sem Skrekkur hefur verið haldinn hafa börn á landsbyggðinni og í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur horft öfundaraugum á jafnaldra sína fá að njóta sín í jafn metnaðarfullu verkefni og Skrekkur er. Ég tel það eðlilegt að tækifæri barna til náms eigi að vera jöfn óháð búsetu.


Menning fyrir börn og sér í lagi menning fyrir börn sem búin er til af börnum er ákaflega mikilvæg og hefur margþætt gildi. Eins og ummæli þátttakenda gefa sterka vísbendingu um þá getur þátttaka í verkefni eins og þessu stuðlað að velferð þeirra, hún opnar á ný tækifæri og gæti jafnvel orðið til þess að einhver finnur sína fjöl í lífinu og hvað er mikilvægara en einmitt það?


Skjálftinn 2022-2023

Stefnt er að því að halda Skjálftann í öllu sínu veldi 17.-19. nóvember 2022 og fá allir skólar á Suðurlandi fá boð um að taka þátt. Skjálftinn fyrir skólaárið 2022-2023 hefur hlotið þrjá styrki, tvo frá SASS og einn frá Sveitarfélaginu Ölfusi en betur má ef duga skal og er hér með óskað eftir að sveitarfélög, fyrirtæki eða aðrir sem sjá hag sinn í að styðja við þetta mikilvæga verkefni hafi samband við undirritaða með því að senda póst á asaberglind@gmail.com


Það væri óskandi að Skjálftinn þyrfti ekki að berjast fyrir tilvist sinni á hverju ári heldur fengi öruggan jarðveg með tryggu fjármagni svo sunnlensk ungmenni geti blómstrað í sínum hæfileikum, okkur öllum til heilla.Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Framkvæmdastjóri Skjálftans

s. 6927184


456 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page