Í mars var auglýst eftir tillögum að farandverðlaunagrip Skjálftans og rann fresturinn út 16. apríl. Í vikunni kom samráðshópur Skjálftans saman á zoom fundi til þess að fara yfir innsendar tillögur, en samráðshópurinn samanstendur af tveimur fulltrúm nemenda úr hverjum þátttökuskóla Skjálftans. Á fundinum voru tillögurnar kynntar nafnlaust, en samtals voru þær átta talsins. Eftir fundinn fór í gang kosning þar sem fulltrúar í samráðshópnum kusu þá tillögu sem þeim leist best á. Úr varð að tillaga Ágústu Ragnarsdóttur frá Argh art & design hlaut bestu kosninguna og hægt er að sjá skissu af þeirri tillögu hér að ofan. Um tillöguna segir Ágústa: ,,Hugmyndin er að fótur gripsins sé úr grjóti, eittthvað sem sprottið er úr iðrum jarða, nokkurs konar frumkraftur, öfl sem hægt er að heimfæra upp á manneskjuna þegar einhver innri kraftur brýst út í t.d. sköpun. Upp úr grótinu "gjósa" fimm persónur úr plexígleri, gengsætt og í regnbogalitunum. Formin hörð, sprungur á milli eins og eftir skjálfta, núningur, kraftur. Ledljósalýsing á bak við". Það verður spennandi að sjá lokaútkomuna, en gripurinn verður 40-50 cm. hár.
Skjálftinn þakkar öllum þeim sem sendu inn tillögur.
Comments