top of page
Search
Writer's pictureSkjálftinn

Allt sem þú þarft að vita um Skjálftann 2021



Skjálftinn fer fram í í fyrsta sinn í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar laugardaginn 15. maí. Fyrir þau sem ekki vita þá er Skjálftinn sunnlensk útgáfa af Skrekk, hæfileikakeppni unglinga í grunnskólum Reykjavíkurborgar sem haldin hefur verið í 30 ár. Í ár fengu allir skólar í Árnessýslu boð um þátttöku og á næsta ári stendur til að bjóða öllum skólum á Suðurlandi þátttöku, allt til Höfn á Hornafirði. Atriðin að þessu sinni verða átta talsins.

Upphaflega stóð til að Skjálftinn yrði haldinn með fullum sal af áhorfendum í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn, en vegna sóttvarnaaðgerða er það ekki hægt og því mæta liðin til Þorlákshafnar, hvert á eftir öðru til að taka upp atriðin sín laugardaginn 15. maí. Viðburðurinn verður sýndur daginn eftir á RÚV 2, sunnudaginn 16. maí kl. 18.

Verðlaunaafhendingin fer fram "live" í gegnum instagram síðu Skjálftans þegar Salka Sól, formaður dómnefndar, fer með farandverðlaunagripinn til fyrsta sigurliðs Skjálftans. Upptaka af þeirri stund verður svo áfram aðgengileg á instagram síðu Skjálftans.


Dómnefnd skipa þau Bjarni Snæbjörnsson, Margrét Bjarnadóttir og Salka Sól sem er formaður dómnefndar. Nánar má lesa um þau á þessari slóð.


Í Skrekk, sem er fyrirmynd Skjálftans í einu og öllu, er alltaf valið Skrekkslag á hverju ári. Undir venjulegum kringumstæðum yrði fullur salur af mjög hressum unglingum að syngja saman Skjálftalagið með tónlistarmanninum sem flytur það, en í þetta sinn verðum við að sameinast fyrir framan skjáina og dansa og syngja eins og enginn sé að horfa þegar Bassi Maraj flytur Skjálftalagið 2021.



Unglingarnir sem hafa unnið síðustu mánuði að því að setja saman atriði hafa staðið sig svo ótrúlega vel og sérstaklega ef horft er til þessa furðutíma heimsfaraldurs. Þau hafa haldið í jákvæðnina þrátt fyrir að þau fái ekki að hitta hin liðin og ekki að sýna atriðin sín fyrir alla samnemendur, foreldra og aðra sem vonast var til að geta boðið í áhorfendasalinn. Þátttakendurnir hafa lagt á sig gríðarlega mikla vinnu við að setja saman atriðin og fullvíst að fleiri heldur en færri eru að fara langt út fyrir sinn þægindaramma. Það krefst hugrekkis og eiga þau öll mikið hrós skilið.



Markmiðið með Skjálftanum er að bjóða ungmennum upp á verkefni sem eflir sköpunargáfu, þjálfar nemendur í markvissu langvinnu hópastarfi sem styrkir sjálfsmynd einstaklinga og hefur jákvæð áhrif á skólamenningu. Skjálftinn er samfélagslegt verkefni með sjálfbærni að leiðarljósi, búinn til með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á samfélag og menntun ungmenna.


Endilega fylgist með Skjálftanum á facebook og instagram






425 views0 comments

コメント


bottom of page