top of page
Search
  • Writer's pictureSkjálftinn

Vika í Skjálftann! Skjálftalagið og dómnefnd kynnt

Nú þegar ein vika er í Skjálftadaginn 15. maí er við hæfi að kynna þau sem fá það erfiða verkefni að velja siguratriðið. Að því sögðu er rétt að benda á að í Skjálftanum eru allir sigurvegarar sem koma að atriðunum því hver einn og einasti þátttakandi er að uppskera eftir mikla vinnu. Allir sem hafa komið fram eru búnir að fara út fyrir þægindarammann sinn, vinna náið með fólki sem það er ef til vill ekki búið að vinna mikið með áður, prófa (margir í fyrsta sinn) að þróa hugmynd í fullbúið sviðslistaverk, æfa og æfa og svona mætti lengi telja. Allir sem fara í gegnum svona ferli verða ósjálfrátt sigurvegarar.

En Skjálftinn er vissulega keppni og það þarf að finna leið til þess að ákveða hver vinnur hana. Skjálftinn er búinn að fá til liðs við sig frábært fagfólk í sviðslistum sem ætlar að taka það að sér:


Salka Sól

Formaður dómnefndar er Salka Sól sem er flestum kunnug fyrir sína endalausu hæfileika. Hún hefur komið fram sem söngkona meðal annars með hljómsveitinni Amabadama, samið tónlist fyrir leikhús og sungið í allskonar ólíkum verkefnum. Hún er menntaður leikari og lék meðal annars stórt hlutverk í leiksýningunni Hrói Höttur og sjálfa Ronju Ræningjadóttur í samnefndu leikriti sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Þessa dagana vinnur Salka Sól meðal annars að nýrri leiksýningu sem heitir BÍDDU BARA! Sú sýning verður frumsýnd í Gaflaraleikhúsinu í september. BÍDDU BARA! er eftir stórstjórnunarnar Sölku Sól Eyfeld, Selmu Björnsdóttur og Björk Jakobsdóttur og er gamanleikrit með helling af frábærri nýrri tónlist.


Margrét Bjarnadóttir

Eins og Salka Sól er Margrét Bjarnadóttir ákaflega fjölhæf listakona. Hún er dansari í grunninn og hefur stundaði hann frá barnæsku sem leiddi hana í danshöfundanám í listaháskóla í Hollandi. Magga kemur við í mörgum ólíkum listformum; sviðslistum, myndlist, skrifum og fleiru. Sem dæmi, þá lék hún hlutverk í kvikmyndinni Eiðnum sem kom út árið 2016 og hefur samið ótal dansverk og unnið með listamönnum eins og Björk og Ragnari Kjartanssyni. Hér má lesa nánar um Möggu Bjarnadóttur.


Bjarni Snæbjörnsson

Bjarni lauk leikaranámi með BFA gráðu frá sviðslistadeild Listaháskóla Íslands 2007. Bjarni er einnig með margra ára söngnám að baki, meðal annars frá Söngskólanum í Reykjavík og Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Árið 2015 lauk hann MA gráðu í listkennslu frá LHÍ og BA gráðu í ensku frá Háskóla Íslands 2013.

Bjarni hefur komið víða við á sínum ferli. Hann hefur leikið hjá Leikfélagi Akureyrar, í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu þar sem hann hefur leikið síðustu ár. Hann hefur einnig verið afkastamikill hjá sjálfstæðum leikhópum og hefur leikið í klassískum og nýjum verkum. Bjarni leikur í Kardemommubænum og Framúrskarandi vinkonu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2020-2021, auk þess sem hann leikur í samstarfsverkefnunum Sjálfshjálparsöngleik Viggó og Víólettu og Góðan daginn, faggi sem sýnd eru í Kjallaranum.


Bassi Maraj er Skjálftalagið 2021

Raunveruleikastjarnan og tónlistarmaðurinn Bassi Maraj hefur heldur betur slegið í gegn með fyrsta lagi sínu sem heitir einfaldlega Bassi Maraj. Frá því lagið kom út um miðjan mars mánuð hefur það verið eitt af mest spiluðustu lögunum á Íslandi og alveg víst að það er mikil tilhlökkun fyrir meira efni frá Bassa Maraj.

Bassi Maraj kemur til Þorlákshafnar til að taka lagið upp fyrir Skjálftann sem verður svo sýnt ásamt atriðunum á ungruv.is frá kl. 18 sunnudaginn 16. maí.102 views0 comments

Comments


bottom of page