List fyrir alla er samstarfsaðili Skjálftans og kemur með ákaflega sterkan stuðning sem Skjálftinn er afar þakklátur fyrir. Nú á næstu vikum heimsækja dansararnir Valgerður Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir alla þátttökuskóla Skjálftans, samtals 10 grunnskóla, en fyrsta heimsóknin var í Bláskógaskóla á Laugarvatni þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Þar byrja þær á að dansa fyrir alla þá grunnskólanemendur sem geta verið viðstaddir (covid enn að stíða okkur) og spjalla við þá um dans. Að því loknu verða þær með dansnámskeið fyrir Skjálftahópana sem eru þessa dagana að byrja að vinna í atriðum sínum. Þær Valgerður og Snædís munu sjálfsagt koma með mikinn sprengikraft inn í þá vinnu enda ekki á hverjum degi sem nemendur fá tækifæri til að læra af atvinnudönsurum, en báðar hafa þær dansað með Íslenska Dansflokknum sem dæmi.
Það er ekkert rétt eða rangt í dansinum heldur gefst hverjum og einum tækifæri til þess að skapa sinn dans með sínum líkama, því öll erum við jú einstök og fullkomin eins og við erum.
Comments